Síðasta mærin í dalnum

. . . . . . . . . . . . . Life as I know it . . . . . . . . . . . . .

föstudagur, ágúst 31, 2007

Nokkrar góðar

Hvítur kjóllinn......og allt eins og það á að vera! Yndislegt.

Dísa skísa og Ísi skvísi. Just married:)

Ella Málmfríður mín kom heim frá DK í veisluna

Guðrún Dúfa, Aldís Birna brúður og Eva Björk

Gelloz vinkonuhópurinn.... flottastar:)

Og í annað........
Helmingur kassana góðu í bílskúrnum hjá Jóni Gunnari áður en hafist var handa.
Ný færsla að neðan. Góða helgi.
Eva perfect picture

Gulldrengurinn

Ég er alltaf í svo góðum gír á föstudögum því það er uppáhalds vikudagurinn minn.

Síðustu dagar mínir í suðri voru mjög þéttskipaðir.
Ég var mikið að vinna og tók að mér 4 aukavaktir. Svo kom að brúðkaupinu hjá Aldísi og Ísólfi sem var alveg æðislegt. Það sem mér finnst best við brúðkaup fyrir utan giftinguna sjálfa er það að vera með öllum vinum mínum eða fjölskyldu í veislunni og skemmta mér með þeim. Mér finnst það æðislegt. Ég var á næturvakt nóttina áður og hafði mestar áhyggjur á því að sofna í kirkjunni því ég var búin að vera á næturvöktum fyrir það, brjálað að gera og ég hafði ekki mikið sofið. En ég náði að halda haus meira að segja til kl 05 um nóttina og með áfengi í æðunum. Aldís var geislandi í æðislegum prinsessukjól. Athöfnin var eftir því, þar sem Pálmi litli kryddaði aðeins upp á þetta og aðal söngkonan úr Gospelkórnum (sem söng með sálinni og gospel) söng 4 lög og ég fékk alveg gæsahúð. Eftir athöfnina var móttaka í Haraldarhúsi með snittum og kampavíni en ég stakk af upp á spítala til að sjá prinsessuna hennar Katrínar minnar. Hún var nefninlega að fara heim daginn eftir og ég varð auðvitað að sjá þær;) Litlan er yndisleg og gaman að ná þeim á Skaganum. Þegar stelpurnar voru svo að fara í veisluna var ég búin að fá 3 símhringingar til að láta mig vita frá ýmsum öðrum en þeirri sem ég bað um að láta mig vita! hu hmm. Veislan var rosalega flott. Rosalega góður matur. Flott atriði m.a. kom Jónsi og tók nokkur lög. Svo var ball með Buff og Matta í Pöpunum sem hafði nú samt eitthvað gleymt sér heima. Ég skemmti mér mjög vel. Við enduðum á Mörkinni. Sumir drukku meira en aðrir. Einn ungur herramaður vildi sérstaklega segja mér að ég væri stór glæsileg;) sem er alltaf gaman að heyra. Komst á séns en tók það ekki alvarlega þar sem ég hef hafnaði því tilboði áður og mun gera áfram.

Mig langaði virkilega til að komast yfir allt sem mig langaði til að gera áður en ég færi norður. Ekki misskilja mig þannig að það hafi allt verið í rassgatinu á mér. Nei ég náði að áorka mjög miklu sem var á "to do listanum". En svona er lífið og voru nokkrir hlutir sem þurfa því miður að bíða þangað til í sept- okt þegar ég kem í 5 vikur ta tammm. Þannig að ekki tapa gleðinni mín kæru;). Ég reyndar sé fram á netta dagskrá þá þar sem að þeir sem ég komst yfir að hitta vilja fá að hitta mig aftur af því að þeir sjá mig eiginlega aldrei!! Ég var náttúrulega að reyna að skipuleggja mig sem best en allt kom fyrir ekki. Fólk hreinlega móðgaðist bara þegar ég sendi þeim sms og spurði hvað það væri að gera á fimmtudagskvöldið í þar næstu viku. Já ok það var kannski svolítið langur fyrirvari en svo kom ég þessum aðilum á óvart og cuttaði á smá svefn til að komast til þeirra fyrr. Eins og þið vitið þá skiptir það mig engu máli þar sem að ég ætla að sofa í ellinni.

Ég fór í gegnum búslóðarkassana og þar kenndi ýmissa grasa. Þó er það einn hlutur sem ég sakna enn. Hvar ætli hann sé bara??? Þetta verkefni tók þó minni tíma heldur en ég hélt þegar ég stóð andspænis öllum kössunum hjá Nonna vitandi að annað eins væri í bílskúrnum heima. Ég missti mig kannski aðeins að vilja taka svona mikið með mér norður. Þar sem ég sendi mömmu og pabba með slatta til baka. Enda hver þarf handryksugu þegar maður er með fót eða handþeytara þegar maður á kitchen aid. Sem n.b. samavarar sér rosalega vel í sínum fermetra í íbúðinni og þeim fermetrar er sko vel varið. Jói frændi átti bara ekki orð þegar hann var búin að dásama íbúðina og sagði: "Nohhh bara kitchen aid og allt?". Já Jói minn, auðvitað á ég hana! Það er eitt þó. Síðasta daginn minn í vinnunni var ég búin að tilkynna staffinu það að ég ætlaði að baka fyrir þær í minni hrærivél þar sem að ég hafði aldrei bakað í henni. Tími gafst þó ekki til þess en ég bakaði kökuna í kitchen aid sem var innan fjölskyldunnar;). Þær fyrirgefa mér það sennilega. Þær voru líka svo rosalega ánægðar með veitingarnar. Marens með rjóma og vínberjum, jarðarberjum, bláberjum, banana, kívi og súkkulaðirúsínum ásamt ískaffi á línuna.

Þegar ég var að senda mömmu og pabba með dótið mitt suður aftur sendi ég þau að sjálfsögðu heim með sumarskóna mín sem er eins og einn höldupoki. Svo segir pabbi við mig: "En hvaða skór eru þetta?" og bendir á eina skó sem hann sá og kannaðist ekki við. "Þetta eru vetrarskór" svara ég. Svo nokkru seinna þegar við erum að fara út þá segir pabbi: "Eru þetta svona vetrarskór?" Og ég svara "Já" alveg að rifna úr stolti "þetta eru einmitt vetrarskór". Pabbi karlinn, klikkar sko ekki;). Talandi um föt. Þegar við vorum að leggja í hann að heiman tilkynni ég mömmu að ég sé með tvo poka sem eigi að fara í Rauða krossinn. Mamma segir að það sé náttúrulega ekkert vit í því að vera að taka þá með. Þá benti ég henni góðfúslega á að síðast þegar ég tékkaði þá var Rauði krossinn ekki komin með aðsetur í bílskúrinn hjá okkur. En þar hafa þessir pokar haldið sig síðasta hálfa árið. En með trega skildi ég pokana þar eftir fyrir annað sem mér þótti þarfara.

Sumarið leið nú ekki hjá án þessað maður léti að sér kveða í karlamálum! Ég fór nefninlega á date. Ég var nú samt eitthvað tvístígandi og eftir að hafa frestað því og breytt því úr "út að borða" í kaffihús, seinkaði því til kl 22:00 og vísvitandi ætlað að mæta of seint, fór ég. Þetta var ágætispiltur, fæddur "73 sem hefur jú alltaf meira verið svona minn ágangur þrátt fyrir misjafnan þroska hjá þeim sem honum tilheyra. Date-ið gekk ágætlega þó að ég hafi ekki verið jafn sniðug og hún Elína Arnar að fara með sinn á Súfustan kl 21 vitandi það að það lokaði kl 22. Þá gæti hún bara farið með hann eitthvað annað eða einfaldlega sagt þetta gott ef það var ekki að blíva. Hún er náttúrulega bara snillingur. Hann kom og sótti mig svo eftir allt saman, algjör herramaður, opnaði dyr og borgaði brúsann. Hann skutlaði mér heim og ég segi þegar ég er að fara (út úr flotta bílnum n.b): "Heyrðu við verðum kannski bara í bandi?" Hann: "Kannski bara?" Ég: "Já eða þú veist, heyrumst". "Hann: "Já er það ekki?". Fjúkkett... ég náði að redda mér fyrir horn. Ég held að honum hafi sárnað svolítið því að við heyrðumst ekki meira sem mér fannst svo sem allt í lagi. Ég var meira að hugsa um að vilja eyða restinni af sumrinu í að vera með vinum mínum heldur en kynnast einhverjum nýjum gaur. En nú eru breyttir tímar og ég hef sett upp veiðihár og skyggni þrátt fyrir lélegt skyggni!;)

Ég las greinar um daginn í Nýju lífi þar sem vinir voru spurðir af hverju vink þeirra væru á lausu. Þannig að ég spurði tvær góðar vinkonur mínar af hverju þær héldu að ég væri ennþá á lausu? Önnur svaraði að ég væri svo vandlát en hefði að vístu lagast mjög svo í þeim efnum. Ég hef sko haldið mig þokkalega á mottunni í þeim efnum og hef ekki gert kröfur lengi. En þær voru sammála um það að ég væri einfaldelga ekki nógu mikil tík í mér. TÍK já. Það er víst málið í dag. Gaurar vilja stelpur sem eru tíkarlegar. Ég er víst svo góð og það er víst ekki það sem maðurinn vill. Ég hef því sett mér það markmið að tíka mig upp. Það er ekki í eðli mínu en ég mun reyna að gera mitt besta og ef það er eins og með annað sem ég tek mér fyrir hendur þá ætti mér að verða það vel úr verki. Ég ætla bara ekkert að fara að rasa út og rífa kjaft. Nei ég mun samt sem áður gera þetta pent og passa mig á því hvað ég er að segja og allt það. Ég er dama þó ég sé að taka þetta upp.

Ég kvartaði sáran við þær í vinnunni áður en ég hætti og spurði einfaldlega hvar allir sætu deildarlæknarnir væru??? Þær höfðu enginn svör. Ég sá einn.... EINN....sem tilheyrði minni deild. Hann var það sem við köllum gullfallegur. Sjaldgæf sjón. Gulldrengur. Svo fallegur að maður gæti grátið. Nánast. En það var ekki nóg með það að hann væri á föstu heldur spilaði hann með hinu liðinu og kærastinn hans var víst líka jafn fallegur. Þar fór það.

Ég sagði við vinkonu mína á msn um daginn að nú væir ég endanlega búin að fá nóg af karlmönnum, NÓG! Hún lá ekki á því og svaraði um hæl: Það á sem sagt að hösla um helgina:).
Mér fannst hún sniðug þessi elska.

Ég er búin að standa mig svo vel alla daga vikunnar og taka mér góða göngutúra á kvöldin. Ég sver að það er nánast munur á mér í buxunum mínum;)
Ég hafði það voða kósý í gær. Kveikti á kertum og tók fimmtudagsdekur á þetta. Þurrskrúbb, húðhreinsun, háreyðingu, brúnkukrem og aloa vera vaselín á hæla, neglur á höndum og fótum. (Lét sko setja gel yfir neglurnar mínar áður en ég fór að sunnan). Stelpurnar í bekknum mínum voru að segja í dag hvað ég væri alltaf mikil skvísa og ég var ómáluð. Það er aldeilis sem náttúrlega fegurðin er inn!

Jæja þá ætla ég að hendast heim, hafa mig til og opna mér rauðvínsflösku.

Eva hin góða

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Sóló

Þá er stelpan komin norður eftir yndislegt sumar. Ég rann í bæjinn s.l. fimmtudag ástam fríðu föruneyti.

Mömmu var ekki að lítast á blikuna þegar við vorum að taka upp úr búslóðarkössunum heima í bílskúr.
Hún segir eftir einn slíkan: "Komdu með plastkassa."
Ég: "Ég er búin að fylla þá alla og ætla að taka þá með mér norður."
Mamma: "Nei, Eva Björk! Ertu rugluð?"
Henni varð einnig nokkuð brugðið þegar ég renndi við heima með bílinn minn drekkhlaðinn og það bara dótið sem ég var með fyrir sunnann! Þá voru þau búin að fylla Toyotuna! Þá var bara að troða.... og aðallega í minn bíl.
Svo var brunað af stað. Við stoppuðum á Blönduósi á Pottinum og Pönnunni sem er nýr staður þar og fengum okkur að snæða. Túristinn á næsta borði snýtti sér svo rosalega að ég sver fyrir það að pabbi átti erfitt með sig. En við vorum nú langt komin með það að borða.

Við byrjuðum á því að henta inn dótinu í Löngumýri. Ég ætlaði reyndar að gista en hætti snarlega við þar sem var von á rafvirkja daginn eftir kl 09 og það inn í svefnherbergið. Hann hefði samt örugglega verið þræl sáttur ef að ég hefði legið í rúminu nánast á túttunum..... je my, sexy thing.
Við hófumst handa kl 11 daginn eftir. Þetta voru margir kassar sem hlóðust hvorn ofan á annann enda engir 100 fermetrar. Þegar ég fór með pabba upp í Furulund að sækja restina þá sagði hann: "Og hvað átt þú hér?" Og litla fallega prinsessan hans svaraði: "Allt." án þess að blikna.
Föstudagurinn fór í þetta ásamt laugardeginum með dyggri hjálp foreldra minna og pabbi var lazarus í ofanálagt. Við fórum líka í R.L. (keypi sjónvarpshillu, yfirdýnu, auka stóla, gardínur, plastdúk, blúndukant, þvottabala og fl) og svo á Nytjamarkað upp á Hömrum þar sem ég gerði kostakaup og keypti amerískan svefnsófa á 10.000 kr og gler sófaborð á 2000 kr. Mér fannst sófinn svo ljótur sem var þarna að við hentum honum og svo var bara einbreitt rúm þarna sem var náttúrulega ekki nógu gott fyrir mig en mér hlotnaðist rosalega gott rúm frá henni Páls. Ég hreinlega elska að vera í rúminu...... ummmmmm. Takk elskan.
Pabbi var alveg með opna budduna og borgaði allt hægri vinstri aðalega vegna þess að ég hafði gleymt að millifæra á kortið mitt. Hann var nánast farin að svitna held ég. Samt sagði hann: "Keyptu bara það sem þú þarft. Ég borga svo bara. Er það ekki vaninn?"( sem er reyndar ýkt). En síðan kom ég eins og færandi engill og borgaði honum hverja einustu krónu sem hann hafði greitt fyir mig. M og P fóru reyndar til Jóhannesar og keyptu smá í ísskápinn minn. Ég fór samt aftur á laugardeginum og verslaði fyrir 7000 kr og svo fyrir 2000 kr í vikunni og svo í NETTÓ og verslaði fyrir aðrar 2000 kr þar! Inn í þessu eru engar hreinlætisvörur, bökunarvörur eða krydd. Held að ég átti mig stundum ekki á því að ég búi ein.

Ég var svo sátt á laugardagskvöldið enda búin að koma mér rosalega vel fyrir. Pullur í sófann. Dúkar á borðin. Uppábúið rúm. Myndir á veggina. Svart - hvít aðalþema í eldhúsið, ásamt litum í horninu og upp á skápunum, með mildum handmáluðu spænskum bökkum á eldhúsborðinu og munnþurrum úr bómull. Bleikt og gyllt á ísskápnum. Beige í sjónvarpsholinu. Mild dökk bleikur inn á baði. Og svo er svefnherbergið mest í ljósum lit og smá brúnum með hvítri seríu seríu yfir englunum mínum.
Ég kíkti aðeins út um kvöldið en það var glatað og þekkti ég nú ekki marga nema gamlan pappakassa sem fær ekki einu sinni illt augráð frá mér. Mér fannst friends heima í sófa hljóma miklu betur og var komin aftur heim innan klukkustundar.
Það var svo til allt tilbúið morgunin eftir og mamma spurði hvað ég hefði eiginlega verið lengi að. En ég var búin að þessu um kl 01 um nóttina eftir 3 klst púl. Innan við sólahring eftir að ég var búin að koma mér fyrir í íbúðinni minni var ég búin að fá fólk í brunch ((mömmu, pabba, Siggu og Jóhann (enda vorum við búin að vera í svo góðu yfirlæti hjá þeim um helgina)), skúra og henda í þvottavél. Leigjandi minn kom akkurat niður þegar við sátum í kósíheitum öll saman og fannst þetta svo flott hjá mér að hún ætlar að koma og taka myndir. Orðspot mitt hefur dreift úr sér og er m.a. búið að ráða mig í vinnu við innanhús arkitektúr þegar ég kem næst heim. Takk fyrir takk.
Eina sem öllum finnst vanta í kósíheitinn er eitt stykki karlmaður. Let´s face it... við erum á Akureyri þar sem slíkt með fríðindum er mjög erfitt að finna.

Nú er alveg allt komið og þá meina ég líka skápaskipulaggningar nema það er einn hængur. Ég þarf að ráða rafvirkja af því að ég færði ísskápinn til norðurs og þar af leiðandi þarf að færa rofan svo að ég geti athafnað mig í eldhúsinu. Hélt að þetta yrði allt í lagi en vetur er að skella á þannig að ég vil hafa meiri birtu. Svo veit ég ekki hvort að rafvirkjar geti fiffað sjónvarp því að ég næ bara stöð 1 og er með sjónvarpsloftnet. Ég tengdi samt dvd spilarann og videoið alveg sjálf:). Það þyrfti samt kannski ekkert að fylgja sögunni en videoið virkar ekki. Þannig að kannski þyrfti ég að fá einhvern gaur til að sansa það líka.

Ég get helt upp á kaffi á 4 vegu. Ég á 2 tegundir af kaffisírópi. Get boðið upp á nokkar tegundir af heitu te og 2 af köldu. Ég get boðið upp á íste. Ég get fært fólki mjólkina kalda eða flóaða. Ég á pönnukökupönnu og vöfflujárn og bakarofnin elskar mig.
Verið alltaf velkomin til mín í hreiðrið mitt.

Mikið er ég fegin að vera búin að safna í búið síðan ég var 16 ára enda er nánast allt í íbúðinni mitt. Nú get ég í alvörunni farið að safna einhverju veglegu. Er að spá í hnífasetti, salat áhöldum, svo ætla ég að safna Ittala kirstal og Rosendal glösum. Þau eru ekki rándýr, klassísk og ég fell ekki í yfirlið ef þau brotna. Keypti mér áleggsgafla í Byko og þá þarf ég bara að leita mér að ísskeið og mælikönnu og þá er ég góð.

Fyrstu gestirnir mínir eru að koma um helgina. Ég er að fara í matarboð, innfluttningspartý á föstudaginn og ætla sjálf að halda eitt slíkt á laugardaginn. Blekuð er ekki orðið yfir það sem ég ætla að vera um helgina heldur hél blekuð!

Pistill um "the last days of south" er að vænta innan skamms ég bara gat ekki hugsað mér að hafa þennan lengri. Þá koma líka myndir.

Eva Stolta.

Ps. Takk elsku besta mamma mín og pabbi minn. ooo & xxx.

mánudagur, ágúst 20, 2007

Working (it) girl

Núna.....

um helgina var ég í æðislegu brúðkaupi.

er ég búin að fara í gegnum 16 misstóra og mikla búslóðarkassa.

er minna en sólahringur eftir að ég verði búin að pakka og þrífa.

3 dagar í að ég flytji á Akureyri.

á ég eftir að vinna 2 vaktir.

er komið hvert ég fer í verknám.

eru 98 dagar í N.Y.C. sem ég er n.b. loksins búin að bóka.

en frekari upplýsingar er að vænta síðar......

Loksins viðurkenni ég það.

Eva upptekna

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

Týnt hjól

Flottasta mynd kvöldsins;) sjálfsmynd að sjálfsögðu

Flott hjá stelpunni, smellpassar í þemað

Fallegasti vinkonuhópur á landinu eða hvað??? (vantar Ingunni, Heiðrúnu og moi á myndina)

Ég og Mæsa mín bumbulína. Bara tæpur mánuður í prinsinn.

Gelloz píku-djammið heppnaðist ágætlega þó að ekkert slái djamminu 2005 við. Fyrst var kokteill heima á Lindargötu þar sem að sjálfur gestgjafinn var búin að skreyta í takt við þemað og hristi eins og eina bollu fram úr erminni ásamt léttum veitingum. Eftir að allir höfðu vætt kverkarnar gengum við einna mínútu gang að Austur- Indía fjelaginu. Met þátttaka var í ár en alls mættu 17 gelloz meðlimir og 4 báru við forföll í vikunni sem leið. Þegar þangað var komið var borið fram kampavín sem var víst í boði vinar sem ekki vildi láta nafn síns getið. Við erum svo vinsælar:). Eftir ljúfan en jafnframt mis sterkan mat var farið aftur yfir til mín og djammað fram eftir. Þrátt fyrir að helmingurinn hafi horfið snemma inn í nóttina til ástsjúkra eiginmanna og yndislegra barna sinna skemmtum við restin okkur bara nokkuð vel. Ég var bara létt og vildi komast snemma heim í holuna mína þar sem ég átti að fara að vinna daginn eftir. Fór samt ekki alveg hel sátt þar sem að “The way I am” með Timbaland hafði ekki komið þrátt fyrir ósk mína.
Ég þurfti svo að redda mér fyrir helgina vegna þess að snyrtifræðingurinn minn er í fríi og vaxaði sjálf á mér fæturnar, Gudda syss sá um augnabrúnirnar og svo ákvað ég að leyfa sjálfri mér að fara í pedicure til Hrefnu og er þvílíkt ánægð með táslurnar mínar. Ætla jafnvel að fá mér the real thing fyrir skólann.

Verslunarmannhelgin kom og fór og mér gæti ekki hafa verið meira sama. Ég átti að vera í þriggja daga fríi alla helgina en tók að mér að vinna fyrir hana Halldóru Kristínu svo hún gæti verslað og sólað sig í Ameríku. Svo tók ég að mér aukavakt. Á föstudeginum átti ég frí og þá kom Ella mín í höfuðborgina. Við skelltum við okkur á Reykjavík pizza company og tókum svo strunsið niður Laugarveginn (vegna veðurs). Ég gat þó bremsað okkur af til að reka nefið inn í einstaka búð og þar með hófust kaupin. Ég keypti mér kjól og ermar og Ella eitthvað líka. Sögunni stemmir ekki hver stakk upp á því að fara í Kringluna. Ella ætlaði nú ekkert að versla sér þar og var bara þarna “með mér”. En Ella verslaði meira en ég og eftir að ég hafði tekið hana með mér í La senza og í sakleysi mínu mátað nokkra brjóstahaldara, verslaði hún fyrir einhverja þúsundkalla meðan hún beið. Þá var þetta komið gott að hennar mati og ætlaði þá að fara að draga mig út úr Kringlunni þegar enn voru 3 verslanir eftir sem voru á óskalistanum mínum! Ég fann mér ýmislegt. Nauðsynlegt og ekki nauðsynlegt. Það má liggja milli hluta. En takk Ella mín fyrir að hafa komið með mér;).

Eftir að hafa verið að vinna skylduvaktir og aukavaktir, verið veik í og með fríunum mínum, staðið á haus í alls konar dagskrá er ég loksins komin í kærkomið frí. Ég held að ég hafi sjaldan á ævinni verið jafn þreytt eins og núna en mér er það lífsins ómögulegt að slaka á. Ætlaði bara að vera heima í gær en fór þrisvar sinnum út eftir kvöldmat! Pabbi heldur því fram að það sé alltaf svo mikið að gera hjá mér að líkaminn ákveði að slá mér öðru hverju niður í veikindi til að jafna sig! Ég á bara eftir að vinna 6 vaktir og það þýðir að brátt verður sumarið á enda. En hvað ég er reynslunni ríkari. Er búin að vera í frábærri vinnu sem ég elska og fá fullt af hrósum fyrir að vera indæl, skipulögð og dugleg. Búin að kynnast skemmtilegu fólki og búin að gera alveg fullt af skemmtilegum hlutum. Þetta er búið að vera gott sumar.

Þegar sumarið er á enda tekur skólinn við. Síðasta árið. Ég byrjaði að reyna að ræða það við foreldra mína í síðustu viku að þeir myndu hjálpa mér að flytja norður. Dótið mitt sem ég flutti suður tekur einn bíl og það mun sennilega fylgja mér til baka og extra dótið sem ég mun taka aftur með mér norður tekur annan slíkan svo að við gleymum ekki dótinu sem er í geymslu á Akureyri. Ég kom foreldrum mínum inn á það í gær að það yrði svo rosalega gaman að vera á Akureyri þessa helgi þar sem að það er menninganótt og margt við að vera. Mig hefur líka alltaf langað að vera á Akureyri þessa helgi þannig að ég er alveg sátt að taka forskot á Ak. Koma ekki í einum spreng á sunnudagskvöldi, yfirleitt þunn og vera að koma mér fyrir alla vikuna. Það stendur líka til að flytja sófa og rúm þannig að gott er að hafa sterkar karlmannshendur til slíkra verka þar sem ég tel mig vera aumingja mikinn þegar af kröftum kemur og skammast mín ekkert fyrir það! Ég er stelpa. Mamma stakk meira að segja upp á því að fara á fimmtudegi og það er í vinnslu. Það marg borgar sig að planta svona hugmyndum tímalega. Ég er búin að hringja og boða komu mína í Löngumýrina þar sem ég mun halda heimili í vetur. Það er rólegt og gott hverfi. Stutt niður í bæ m.a. af djamminu (vink mínar geta því sparað sér 4 x taxa og sett það inn í bensínkostnaðinn á leiðinni Akureyri - Akranes), get labbað í skólann og ræktina (*hóst * ) og þetta er yfir höfuð mjög góð staðsetning. Nú vantar mig bara kúrifélaga og þá er ég góð. Þar braut bjartsýnin alla múra ekki satt?;) Kannski ég setji bara auglýsingu í Dagskránna þar sem sú síðasta sló svona rækilega í gegn:). “Tilvonandi hjúkka óskar eftir kúrifélaga í vetur”, no strains atteched! Áhugasamir skili inn umsókn með mynd og ferli í P.O. BOX 18833 merkt: Týnt hjól. Lykilorðin eru: inn, út, inn inn, út. He he he. Nei það yrði kannski svolítið vafasamt!

Það ætti ekki að verða erfitt að veiða, í nýjum náttbuxum og með anga af þremur nýjum ilmum frá Victoria´s secret… hver stenst sæta stelpu sem ilmar eins og “double slice of haven”? Enginn;)! Takk æðislega fyrir Halldóra Kristín sæta:*

En talandi um að flytja inn. Ég er einmitt komin með fiðringinn að kaupa mér skúringagræjur ó RL og hreinlætisdót í bónus en það verður sko bókað eitthvað með ajax ilmi. En ég hef aldrei þurft að kaupa þetta þar sem ég hef verið áður. Svo tek ég bara extrun á íbúðina þarna um helgina til að gera hana að minni. Ilmkertin eru allavega keypt og eitthvað á ég af alvöru tuskum. Ég hef góða tilfinningu gagnvart þessu. Er bjartsýn með meiru þessa dagana. Fékk meira að segja tilhlökkunar tilfinningu um daginn sem er bara gott merki. Þetta verður sennilega tilkomumikill, spennandi og öðruvísi vetur. Álfabyggðin verður meira að segja inn í myndinni en Erla og Brynja ætla að búa þar.

Eftir mikið af óþarfa upplýsingum og upptalningum. Sennilega af því að ég er svo þreytt. Býð ég góða nótt.

Eva örþreytta

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

Til Engla himinsins

Er eitthvað viðkvæm þessa daganna. Hórmónarnir eitthvað sky hight held ég. Held stundum að ég smitist af hormónaflæðinu hérna á ganginum.

Kvíðablandinn en jafnfram spennandi tilfinning að fara aftur norður. Ég er komin með hugmyndir um hvernig ég get haft ofan af fyrir sjálfri mér. Ég held að enginn hafi áhyggjur af því nema ég sjálf. En það er nóg til að hlakka til. Fyrstu gestirnir hafa þegar boðað komu sína. Svo er stutt í gelloz djammið og niðurtalning hafin fyrir New York.
Annars lítið að frétta síðan síðast. Er bara að vinna, aukavakt m.a. núna og reyna að slaka á þess og milli og ná úr mér þessum skít.

Í einni af minni uppáhalds bíómynd segir: Í lífinu erum við alltaf að safna að okkur fólki og stöðum sem við elskum, (people and places we love). Annað í þessu er það að fólk og atburðir í lífi okkar móta okkur að því sem við erum og jafnvel verðum. Ég trúi því. Ég trúi því líka að stundum sé fólk sett inn í líf okkar, jafnvel tímabundið til að sýna okkur fram á eitthvað ákveðið hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. Við verðum að læra að tileinka okkur þeim hlutverkum sem okkur eru sett og reyna að leika þau eins vel og við getum.

Ég vildi tileinka þessa færslu fólki sem hefur snert líf mitt á einhvern hátt en eru komnir á annan stað.

Ég vil þakka......
  • Langömmunni sem kenndi mér fingravísur á sjúkrabeði sínu og gaf mér ekta prinessukjól þegar ég var 4 ára með 4 undirpilsum. Hann var í svo miklu uppáhaldi að hann hangir ennþá vel varðveittur inn í skáp.

  • Langömmunni sem átti alltaf gott og var alltaf gott að koma til.

  • Litla frændanum sem gerði mig að stolltri stóru frænku sem vaknaði glöð til að passa hann eldsnemma á morgnanna svo að mamma og pabbi gætu kúrt aðeins lengur.

  • Ömmunni sem átti besta knús í heimi og gerði bestu kjötsúpuna.

  • Nágrönunum sem voru eins og amma og afi og leyfðu mér að fara oft í gróðurhúsið í garðinum sínum og fengu mig til að skríða inn um gluggann þegar þau læstu sig úti sem var lítið mál.

  • Langafanum sem angaði alltaf af neftóbaki og lagði sig alltaf í afastól eftir matinn þar sem að skottunni þótti gaman að sitja á hliðina á, í ömmustól og bara hlusta á hann anda.

  • Frænkunni sem dekraði mig mest, viðhélt sælgætissýkinni og tók mig öðru hverju á trúnó.

  • Unga manninum sem lét mér stundum líða eins og ég væri einstök og kvaddi mig svo vel þegar við vorum grunlaus um að við myndum aldrei hittast aftur.

  • Afanum sem hrósaði mér og kom mér svo á óvart þegar ég síst átti von á.

  • Og síðast en ekki síst frænkunni sem var að kveðja þennan heim sem gerði besta mat í heimi, sú eina sem fékk mig til að borða upphitað kjöt. Otaði alltaf af mér aur. Spurði alltaf frétta af mér.

Ég er betri manneskja fyrir að hafa kynnst ykkur öllum og í hjarta mínu eigið þið öll stað.

Veit ekki hvern ég myndi knúsa fyrst,

Eva Engil-bert