Matur, "vin"na og allt fræga fólkið
Í dag er þriðjudagur eins og flestir vita og þá sérstaklega ég því fyrir mér þýðir það að páskavinnuhelgin mikla er búin. Peningarnir streyma inn á bankabókina mína 1. maí og út aftur við hið sama.
Þema dagsins er...........
það hefur svo sem ekkert merkilegt drifið á daga mína undan farið fyrir utan vinnu, matseld, fræga fólkið vini mína og hringingar í pabba án þess að skella á og láta hann hringja til baka.
En við Hrafnhildur renndum okkur norður á s.l. miðvikudag og það var bara svo mikið sem við þurftum að ná upp fyrir tapaðan tíma (í rúma viku) að það var ekki kveikt á útvarpinu fyrr en í lok ferðar. Hugsið ykkur hvernig hefði verið að vera með karlmann í bílnum í öllu þessu masi. Honum hefði sko leeeeiiiðððsss, nema hann hefði náttúrulega verið með batterís leikjatölvu eða annað slíkt fyrir hans þroska. Ég töfraði fram léttan kvöldverð og svo var brunað að taka bensín á lansan sem mótmælti harðlega (sennilega vegna þess að hann hafði verið frekar einmanna hérna á Akureyri) og fór heldur betur að öskra og garga fyrir utan FSA þegar við fórum að sækja Önnu Skvís. Pústið er sem sagt farið eða eitthvað. Anna var hvergi sjáanleg og vegna þess að við vorum nú ekki úti á beint mjög kristilegum tíma fór ég heim frekar reið úr í lansan.
Á fimmtudag var það svo bara vinna en það var ekkert að gera og skíðafólk sem var um langveg komið var heldur betur sótvont. Dagurinn leið löturhægt. Þegar heim var komið var bara eldað kjötrétt í ofni hjá stelpunum og tekið rúnt í Brynjuís og beðið eftir Piparsveininum sem bauð nú upp á heldur betur óvenjulegan endir sem kom sko öllum á óvart.
Föstudagurinn var ekki skömminni skárri í fjallinu og stálpaðir karlmenn voru sko ekkert nett pirraðir heldur bara eins og 14 á túr...... Og varð maður sko heldur betur að passa sig á Þessum með valdið í fjallinu. En 90 % álag og það er jú fyrir öllu. í kvöldmatinn var svo Lundúnarlamb og súkkulagðibúðingur með ís vegna þess að klst rúntur um bæin skilaði ekki rjóma. En meðan við vorum að bruna um þvert og endilegan bæinn var maturinn að eldast og Anna heima að slefa.... sofandi. Á endanum vildi Hrafnhildur "ríka" kaupa 1/2 líter af ís á 460 krónur í Gellunesti því að hún vildi ekki hafa þetta algera sóunarferð. Ég er frekar að gráta peningana hennar en mér fanst rúnturinn fínn. Við horfðum svo Nýjustu Vini. Anna Huld sýndi mér svo nýju fötin sín. Rauða derhúfu og rauðan bol. En það er verið að reyna að gera hana að Þórsara. En ég barði það nú svo vel inn í hana að hún væri KA megin við ána á því tímabili þegar hún ætlaði bara að velja sér lið...... svo heldur maður ekkert með lélegu liðunum. Bara meisturum í sitt hvoru sportinu. Kosturinn við að búa á tveim stöðum. Svo var bílinn náttúrulega alveg að fara á kostum í fílunni og neitaði að fara í gang. Talandi um að vera sár.
Ég var í fríi á laugardaginn og var því send í bæjarferð að kaupa það sem vantaði. Ríkið fyrir stelpurnar að kaupa
Thule í flösku sem var svo tuggið ofan í mig vegna þess að ég var svo hneiksluð að kaupa
Thule og hvað þá í flösku. Svo var náttúrulega farið í Bónus og keypt fínerí með páskamatnum og Þar sá ég hann "Jóhannes í Bónus" sem var svo glaður að sjá mig að hann brosti nú bara til mín og allt. Konan hans var fyrir framan mig í ævilangri röð á kassanum og hún var bara mest bleik; í bleikri dúnúlpu, með bleikan tréfil og bleikt veski. Hvernig skildi hún bara hafa verið klædd á páskadag??? Vegna þess að ekki fannst rétt páskaegg í Bónus fyrir Önnu var farið í Nettó og þar fann ég páskaeggið og Svala á FM sem er náttúrulega ekkert nema sætur. Þaðan var brunað í Hagarann og þar var Bjössi vaxtarræktarkappi og að sjálfsögðu keypt einn haldara og Oriblu hnésokka. Um kvöldið hafði ég svo bara ódýrt kjötfass sem var nú bara mjög gott vegna þess að allt sem ég elda er gott. Við stelpurnar horfðum svo saman á Stellu í framboði sem vakti sko kátínu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum.
Besti dagurinn í fjallinu var á Páskadag enda hafði snjóað svolítið um nóttina. Ég læstist reyndar úti þegar ég kom heim og þurfti að gjöra svo vel að rölta niður í laug enda var veðrið eins og það er örugglega í paradís og leita að stelpunum. En þar fann ég þær eigi en fann bara Herra Ísland. Ég dúsaði því þar í klst og maturinn var þess vegna ekki til fyrr en um kl 20. Við ákváðum að varðveita barnið inn í okkur og földum páskaeggin og eins og alltaf fann ég mitt á mettíma, langfyrst, en Hrafnhildur og Anna hafa nú bara slegið met í að vera lengi. Eftir þetta voru teknar eins og 30 uppstiltar páskamyndir af okkur stöllunum og svo opnuðum við eggin. Ég fór nú bara í smá fýlu því að ég fékk ömurlegan málshátt og ætla ekki að hafann einu sinni eftir. Málshátturinn sem ég fékk í litla egginu upp í fjalli var "Saga er aðeins hálf sögð ef einn maður segir" en þessi speki er úr grettissögu. Það var háttað snemma og glápt á imbakassan.
Fjallið var sko slakt í gær plús að ég var látin húka ein með sælgætinu á Hótelinu en það sem varð þessu öllu af happi var að fjallinu var lokað kl 13 vegna veðurs. Með daginn allan fram undan var ákveðið að fara í road trip um Eyjafjörð. Það má með sanni segja að
allur Eyjafjörður hafi verið skoðaður enda var ég alveg að klepra eftir að búið var að fara alla útúrdúra beygjur á leiðinni til að skoða grjót sem átti víst að vera eitthvað spes. Ég og sex 1/2 lítra kók og ferðageislaspilarinn vorum bara hinir mestu mátar í aftursætinu ásamt ógleði. Guð hvað ég var glöð að komast heim. Við ákváðum að enda páskahátíðina með stæl. Brauð með bökuðum baunum og svo heit eplakaka með ís í eftirrétt. Bjössi úr fjallinu gerði svo við bílinn minn eða allavega í bili og það eftir nokkrar hringingar í pabba (ég borga) til að spurja um hitt og þetta; vélina, árgerð, kertin, pústið, bensíndælu og eitthvað svona karlamál.
Við Hrafnhildur slökuðum svo bara á yfir Krossgötum sem ég tók sko upp því mér finnst hún sæt sama hvað Hrefna segir.
En ég vil þakka ástkærri systir minni fyrir stadífin og hringi við tækifæri en pabbi tók mánaðarkvóta á einu bretti um páskan.
Ég vil enda á þvi að óska Sigga og Möggu til hamingju með hann Inga Þór og ég bíð bara eftir að heyra fréttir þegar sá nýjasti í fjölskylduni lætur sjá sig.
Seinna, Eva ......... íslenska
Ps.
Thule bjórinn átti svo allan tíman að vera
Tuborg. Ég meina auglýsingin er góða en maður kaupir bara ekki
Thule og hvað þá í flösku.